Þýðingar: Knúz – femínískt vefrit
Eftir að hún las viðtal við Stephanie Klee, málsvara vændisiðnaðar, var Huschke Mau, fyrrverandi vændiskonu allri lokið. Hún skrifar: „Ég er ein hinna títtnefndu „sjálfviljugu“ vændiskvenna. Og ég er búin að fá nóg af ykkur sem mælið vændinu bót“.
Kæra Stephanie Klee,
ég vísa til viðtalsins sem borgartímaritið Zitty Berlin tók við þig og langar fyrst í stað til þess að þakka fyrir það. Því hefði ég ekki lesið það, þegði ég enn. Það næsta: Má ég þúa þig? Þar sem við erum svo að segja starfssystur. Því einnig ég þekki vel til vændisins, því það stundaði ég í tíu ár.
Það sem þú lætur frá þér viðvíkjandi vændinu finnst mér afar eftirtektarvert. Það kemur mér einkennilega fyrir sjónir að þú gleymir að nefna nokkra hluti sem mér sýnast vera einkar mikilvægir.
Til dæmis hefurðu gleymt að spyrja þeirrar grundvallarspurningar hvort vændi sé yfirhöfuð nauðsynlegt. Víst er það ánægjulegt að þú styðst ekki við hina gömlu tuggu, að án vændishúsa yrðu nauðganir tíðari (sem þýddi að karlar gætu ekki hamið hvatir sínar, og hefðu þeir ekki aðgang að vændiskonu, gætu þeir ekki annað en nauðgað).
Hvers vegna skyldi samfélagið þurfa á vændi að halda, Stephanie? Hvers vegna mega karlar kaupa konur (konur eru jú í meirihluta þeirra sem selja sig og karlar sem selja sig þjónusta homma). Hvernig útskýrir þú fyrir sjálfri þér þessa staðreynd og hvað segir hún þér? Greinilega verðurðu ekki vör við nein merki um samskipti byggð á valdi. Þarna er fyrsti blindi bletturinn á linsu þinni.
Sá eini sem nýtur sín í vændi er kaupandinn.
Þú segir að vændi sé kynlíf. Ég skil kynlíf þó þannig að þar þurfi minnst tvo til. Ekki eina persónu sem þjóni einungis (!) kynlífsóskum viðskiptavinarins en láti eigin kynverund, sjálfa sig, persónu sína og persónuleika, lönd og leið.
Mig langar gjarnan til þess að fræðast um í hvaða vændisumhverfi þú hrærist, þegar það hefur farið fram hjá þér að „kynlífsleikirnir“ öðru nafni „óskir“ kúnnans verða sífellt ofbeldisfyllri og beinast í æ ríkari mæli að auðmýkingu. Lestu þér til á spjallsvæðum kúnna, kæra Stephanie, þar stendur það svart á hvítu, að karlar (kúnnarnir) líta á það sem tákn um vald þeirra þegar þeir hrækja í andlit konu á vændishúsi, þegar þeir fá að ,,dúndra“ inn í hana, þegar þeir kanna hvað konan „þolir“ þegar kemur að endaþarmsmökum; þegar þeir sprauta sæði yfir andlit konu og vilja að hún kyngi því eftir að hann, kúnninn, hefur troðið tittlingnum niður í kok á henni.
Lestu þér til um hvernig þeir taka til orða á spjallsvæðunum, lestu hvernig allir æsast upp , hvað þeir njóta þess að vita að konunni líkar þetta ekki, en gerir það aðeins vegna peninganna, verður að gera það því hún þarf þessa fjandans peninga, eða vegna þess að í herberginu við hliðina situr náungi. Hvað þeir mjög meðvitað kanna mörkin og fara yfir þau, og ef þeir láta ekki að öllu leyti undan sadískum tilhneigingum verða þeir þó að minnsta kosti varir við þær. Vændi snýst ekki um kynlíf heldur um vald. Aðeins um vald. Þú skalt ekki halda því fram að í vændi geti konur notið sín í kynlífi; sá eini sem nýtur sín er kúnninn og vændiskonan uppfyllir óskir hans. Á sinn eigin kostnað.
Ónei, Stephanie, kúnninn gleymir ekki valdatilfinningunni sem hann hefur keypt sér. Hann gleymir ekki, að konur eru aðgengilegar, að hann getur tekið þær, að þær eru til staðar til þess að uppfylla óskir hans, að þær fela eigin kynverund og sál á meðan á kynmökum stendur og mega ekki hafa þarfir/mörk eða óskir.
Láttu ekki eins og þú hafir aldrei orðið fyrir ofbeldi af hendi kúnna og ekki segja ævintýrið um ljúfa, indæla viðskiptavininn sem vill bara kúra og virðir mörkin sem þú setur. Þýskaland hefur lögleitt vændi og hverjar eru afleiðingarnar? Aukið framboð vændis en þó helst það að eftirspurnin hefur aukist gífurlega. Ég meina þá ekki aðeins að sífellt fleiri verða kúnnar, því að karlar læra að það sé allt í lagi að kaupa konur. (Já, nú þegar heyri ég þau gervi-rök að kúnninn kaupi ekki konu heldur „þjónustu“, hvílík della! Getur þú gert skil á milli þín og þess sem þú gerir með píkunni, rassinum, brjóstunum og munninum? Það er alltaf öll manneskjan sem er snert).
Þið talið EKKI í mínu nafni né nokkurrar vændiskonu sem ég þekki.
Gáðu að því hvað það er sem kúnnar vilja svona yfirleitt: Að kyssa, án varna, endaþarmsmök (einnig án varna), algjör munnmök (sæðið skal gleypt), tungu-rassgatsmök, hnefadrátt, sæðinu sprautað á andlitið, þeir vilja allir á eina og nauðgunarpartí, þeir vilja alltaf yngri stúlkur, þeir vilja „hömlulausar“ stúlkur, sem eru þannig skilyrtar að þær gera ALLT sem kúnninn vill. Þeir vilja eingreiðslureið; eins margar stúlkur/konur og hægt er, allt innifalið í aðgangseyrinum.
Hvernig útskýrir þú þetta fyrir sjálfri þér? Það er þó greinilegt að með lögleiðingu vændis hefur hið sanna komið í ljós: Ofbeldi. Óheftur aðgangur að kvenlíkömum. Gerræði karldrottnunar. Og: Kynferðislegar pyntingar.
Ef þú, kæra Stephanie, kynnir þér spjallsvæði kúnnanna, yrði þér ljóst að þeir eru kvenhatarar. Þeir njóta þess að kvelja konur, og að ganga að þolmörkum þeirra. Og eitt til viðbótar: Kúnnar vilja fá konu sem er þvinguð í vændi. Því hjá þeim geta þeir verið vissir um að þær geri það sem þeim er sagt (verða), það sem hver og ein „virðingarverð“ vændiskona af eldri gerðinni myndi hafna. Það er það sem kúnnar vilja.
Hvernig ferðu að því að sjá ekki hin fjölmörgu stóru vændishús sem eru sprottin upp í sérhverri borg, þar sem vinna aðeins konur sem hafa litla sem enga þýskukunnáttu. „Verndarar“ þeirra koma með þær á morgnana og ná í þær á kvöldin og þær bjóða upp á athafnir sem eru sársaukafullar og heilsuspillandi. Njóta þær þeirra eða hvað? Allt saman masókistar? Þú skrifar að fyrir þessar konur (frá Rúmeníu og Búlgaríu) sé vændi frábær valkostur? Finnst þér vændi frábær valkostur við fátækt?
Þú talar um vændi eins og það sé eitthvað eftirsóknarvert fyrir konur og stúlkur. Hvers vegna nefnir þú ekki ástæðurnar sem reka konur í vændi? Þá á ég ekki við þvingað vændi. Meðal annarra orða; hvernig skilur þú þvingun? Að neyðast til að stunda vændi vegna fátæktar og úrræðaleysis; þú skilur það ekki sem þvingun heldur sem frábært tækifæri? Jafnvel konur sem „sjálfviljugar“ hefja vændi, eru útsettar fyrir þvingun við starfann.
Ef herbergisleigan er til dæmis svo há, að þær verða að taka á móti kúnna, þótt þær ekki vilji, því annars yrðu þær skuldugar „leigusalanum“. Ef þær treysta sér ekki til að hafna kúnna, því annars myndast spenna í samskiptum við „umsjónarmann“ eða „atvinnurekanda vændishússins“ sem er óánægður ef stelpurnar hans eru þekktar fyrir „múður“.
Þú setur það beinlínis þannig upp eins og konur vilji njóta sín í hórdómi. Kæra Stephanie, ég er ein af þessum margumræddu „fríviljugu“ vændiskonum. Ég byrjaði átján ár gömul eftir að hafa verið lamin og misnotuð af stjúpföður mínum í sautján ár þar til ég strauk að heiman. Ég hélt að það væri það eina sem ég kynni; að láta ríða. Og þar sem ég var einungis góð í því, væri það nú líftrygging mín og lífsbjörg.
Í byrjun hélt ég að ég gæti ráðið. Sjáðu, þeir borga jafnvel fyrir þig. Með vændinu stjórnaði ég aðgangi að líkama mínum. Það sem ég lærði var að allir gætu komist yfir mig. Seinna meir mátti ég velja úr: Nei, ekki lengur allir, aðeins þeir sem hafa efni á því.
Ég er alls ekki sú eina. Ég hef ekki kynnst einni einustu vændiskonu, sem hefur ekki ýmist verið misnotuð, nauðgað, eða beitt öðru kynferðisofbeldi, hvort það var sem barn eða fullorðin. Og ég þori að fullyrða, að þjóðfélag okkar upprætir ekki undanbragðalaust gífurlega misnotkun ungra stúlkna, vegna þess að það hefur af henni not. Misnotkun er fyrsta tamningin. Hún er hentug því þarna er konum/stúlkum kennt að aftengjast samfélaginu og sjálfum sér í leiðinni. Að vera ekki til staðar (og það er nákvæmlega það sem kúnninn borgar fyrir – fyrir það að vilji konunnar er ekki fyrir hendi, því hann er búinn að borga hann burt).
Fyrir löngu er búið að sýna fram á samhengið milli kynferðislegrar misnotkunar og vændis. Minnst 60 prósent (aðrar kannanir nefna allt að 90 prósentum) allra vændiskvenna voru misnotaðar sem börn. Það eina sem þessar konur upplifa, Stephanie, er endurtekin sviðsetning eigin martraðar, sem þær vonast til á þann hátt að vinna úr, en tekst það auðvitað ekki. Svo þú vilt ekki að aðstoð sé veitt til að komast úr vændi, heldur aðstoð til þessa að komast í vændi?
Láttu ekki eins og þú hafir aldrei orðið fyrir ofbeldi af hendi kúnna!
Í vændinu hafast við konur sem hafa lent í áfalli og í gegnum vændi viðhelst og bætir í ástand þeirra. Eða hvernig útskýrir þú það fyrir þér, kæra Stephanie, að vændiskonur upp til hópa (líka ég) eru þjakaðar af áfallastreituröskun? (Rannsóknir nefna að að minnsta kosti 60 prósent þeirra þjást af öllum einkennum).
Þú segir að vændi veki ánægjutilfinningu hjá vændiskonum, að það gleðji þær að gleðja kúnnann og fá auk þess fé í vasann. En hvað er það „að gleðja kúnnann“? Það þýðir jú bara, að mér tekst að beita mig sjálfa ofbeldi (með því að hugsa mig burt, ógeð mitt, (ó)vilja minn), svo að kúnninn getið beitt mig ofbeldi, með því að nota mig fyrir sínar óskir. Svo það gerir vændiskonuna glaða? Gleður það þig að vera í aftengd félagslega og ekki til staðar andlega?
Þú segir að þá fyrst þegar vændiskonan stígi út fyrir dyr hóruhússins byrji martröðin, vegna þess að þá verði hún fyrir þjóðfélagslegri mismunun. Þá vil ég segja þér nokkuð, þú sem mælist til að greidd sé aðstoð til að hefja vændi, ekki til að hætta.
Ég er ein þeirra sem tók til við vændið þegar vændi í Þýskalandi var löngu hætt að vera brot gegn siðgæði. Á ég að segja þér hvað það hafði í för með sér? Ég meldaði mig ekki sem vændiskonu, því ég, eins og meirihluti allra vændiskvenna, var hrædd um að geta ekki komist úr vændinu aftur. Því ég óttaðist að vera spurð hvers vegna ég vildi ekki lengur stunda vændið sem væri jú starf eins og hvert annað. Einmitt það gerðist þegar ég vildi hætta. Ég bað um hjálp í heilbrigðiskerfinu og uppskar fálæti. Slapp ekki út.
Hvað hefði ég átt að segja á Atvinnumálastofnun þegar ég lagði inn ALG-II-Antrag, til að þurfa ekki lengur að sjúga daglega tíu typpi svo að ég gæti átt heimili og hefði eitthvað að borða? Þeir hefðu spurt á hverju ég hefði lifað síðustu þrjá mánuði. Ef ég hefði sagt þeim það, hefðu þeir spurt mig hvers vegna ég vildi ekki halda áfram, það væri jú þarna í nágrenninu frábært hóruhús sem væri enn að leita að… Eða hefði ég átt að sanna að ég selji mig ekki lengur. Hvernig sannar kona það?
Hvað hefði ég átt að segja í Atvinnumálastofnun?
Stephanie, þú gleymir líka að minnast á ofnotkun eiturlyfja og áfengis sem er viðvarandi innan vændis. (Hvers vegna skyldi það vera? Eins og allt er jú frábært. Greinilega er þetta eitt risapartí, orgía, og þá tilheyrir þetta kannski, að sleppa fram af sér beislinu?) Þú gleymir svo mörgu; mansali, ofbeldi kúnna, ofbeldi melludólga (ó, þeir heita ekki lengur melludólgar heldur „viðskiptafélagar“, „öryggisaðilar“, „leigusalar“). Þú gleymir kvenhatrinu, sjálfshatrinu. Þú gleymir að leigusalar, atvinnurekendur hóruhúsa, dagblöð (já, auglýsingar þar sem vændiskonur auglýsa sig eru óheyrilega dýrar) og ríkið (með sköttum) græða. Þú gleymir að allir hagnast á vændiskonu, notfæra sér hana.
Hver hefur minnst upp úr krafsinu? Vændiskonan. Hún fær minnsta hluta afrakstursins, en allir hagnast á henni, fá frá henni drátt, peninga, saðningu valdagræðginnar, en hvað fær hún? Áfallastreituröskun, fíkn og talsvert af einmanaleika og hatri á sjálfri sér. Er það vegna samfélagslegrar mismununar, heldurðu?
Skrýtið, í minningaleiftrum sem ég fæ í minni áfallastreituröskun vegna vændis sé ég aðeins myndir af kúnnum sem eru að misnota mig! Stephanie, kynntu þér hjá geðlæknum hvað veldur áfallastreituröskun hjá vændiskonum sem lenda hjá þeim (vonandi!) til meðhöndlunar!
Ég er búin að fá nóg af ykkur sem hampið vændi en þekkið það ekki og segið að vændi sé starf eins og hvert annað. Ég þoli ykkur ekki sem segið lygasöguna um vændi af frjálsum vilja. Þið sem vitið ekki neitt um vændi en röflið í ykkar vinstrisinnuðu sjálfumgleði að „vændi var áður tákn um vald yfir konum en nú hefur gerst umsnúningur á samskiptunum, nú er það vændiskonan sem hefur yfirhöndina“. Aldrei fann ég fyrir því valdi, þegar ég lá undir einhverjum fjandans kúnna, og ég þekki enga sem hefur liðið þannig!
Ég gæti gubbað þegar ég heyri í ykkur sem stundið vændi og kallið ykkur „kynlífsstarfsmenn“. Vegna þess að þið þykist tala fyrir okkur allar sem eru í vændi og látið þær sem ekkert vita um vændið (konur – því að karlar þekkja það yfirleitt sem kúnnar, en munu aldrei segja þeim hvers vegna þeir í alvöru fara í hóruhús, hvað þeir þar vilja og gera!) halda að allt sé í lagi.
Það er EKKI í lagi.
Ég þoli það ekki lengur að þið þykist tala fyrir hönd allra vændiskvenna. Þið eruð minnihluti á þessum vettvangi. Þið lýsið raunveruleika sem er ekki til. Þið gerið lítið úr ofbeldi sem fórnarlömb ofbeldis verða fyrir, mælist til að þau gleðjist, því allt sé jú svo æðislegt. Þið þaggið niður í MEIRIHLUTA vændiskvenna.
Meirihlutinn sem sturtar enn í sig, tekur eiturlyf, eða sviðsetur síendurtekið eigin misnotkun í falskri von um að það slái á sársaukann. Meirihlutinn, sem tekur yfir hatur þeirra sem unnu mein og breytir því í sjálfshatur og hendir sér „af frjálsum vilja“ í hringiðu ofbeldis. Þið kaffærið konur sem vilja tala um ofbeldi í vændi með háði: „Æ, það er leitt að ÞÚ hafir haft slæma reynslu“, rétt eins og ofbeldið sé ekki innbyggt í vændið, heldur liggi í faglegum mistökum konunnar, í sködduðum persónuleika hennar, að hún skuli ekki þola svona frábæra upplifun.
Þið frelsið engan með nýfrjálshyggju röflinu!
Þið þykist tala fyrir allar? Þið talið EKKI fyrir mig né neina aðra vændiskonu sem ég þekki. Þið notfærið ykkur þær aðstæður að flestar vændiskonur eru of uppteknar við að komast af, of hrelldar til þess að tala. Með því að tala fyrir hönd allra vændiskvenna, þaggið þið niður í þeim sem vilja benda á ofbeldið, notfærið ykkur þögnina, minnist einfaldlega ekki á það og gerið þær þannig að fórnarlömbum á nýjan leik.
Þegar þið segið „að allir eigi að gera það sem þeir vilja“ meinið þið í rauninni að kúnnarnir og dólgarnir sem standa að baki ykkar eigi að geta gert það sem þeir vilja. Ekki vændiskonurnar.
Þið frelsið engan með ykkar nýfrjálshyggju kjaftæði. Þegar þið haldið því fram að nú verði vændið aðeins að losna undan öllu eftirliti og sköttum og allt verði í fína lagi, þá ljúgið þið og eltist við einkennilegri kenningu: Ef þrælar eru óhamingjusamir vegna þess að þeir eru þrælar, hjálpar það þá ekki að lögleiða þrælahald svo að þrælunum líði ekki lengur sem væri þeim „mismunað þjóðfélagslega“? Þá geta þeir látið kúga sig enn rækilegar í þrælhaldinu.
Án kveðju, Huschke Mau.